Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogsbær, Mosfellsbær, Reykjavík, Seltjarnarnes og Kjósarhreppur, standa að almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins, skammstafað AHS. Nefndin samanstendur af fulltrúum frá öllum sveitarfélögunum, framkvæmdastjóra sveitarfélaganna, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og áheyrnafulltrúum frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu og Rauða krossinum á Íslandi.

Formaður nefndarinnar er borgarstjórinn í Reykjavík og varaformaðurinn er bæjarstjórinn í Hafnarfirði. Starfsmenn nefndarinnar sem sinna daglegum störfum hennar eru tveir, framkvæmdastjóri sem jafnframt er slökkviliðsstjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Jón Viðar Matthíasson og deildarstjóri sem er sérfræðingur í almannavörnum, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir. Á álagstímum hafa verið ráðnir inn tímabundnir starfsmenn til að sinna verkefnum.

Markmið nefndarinnar er að undirbúa, skipuleggja og framkvæmda ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir og takmarka, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkams- og/eða heilsutjóni. Eða að umhverfi og eignir verði fyrir tjóni. Sem og að veita líkn nauð og aðstoð vegna tjóns sem hugsanlega kann að verða eða hefur orðið.